Close

    Við bátahöfnina við Hafnarhólma eru tveir útsýnispallar og fuglaskoðunarhús með einstaklega góðu aðgengi að ritu og lunda. Sú aðstaða er tvímælalaust með því albesta sem þekkist á landinu – jafnvel í heiminum. Þar er hægt að fylgjast með ritu á hreiðrum og með lundanum við holur sínar. Mest er af honum á morgnanna og á kvöldin en yfir daginn flýgur hann á sjó út í ætisleit. Talið er að milli 10 til 15 þúsund lundapör verpi í Hafnarhólma. Lundinn hverfur yfirleitt allur samtímis rétt fyrir miðjan ágúst. Í Hólmanum er einnig talsvert æðarvarp og einnig eru þar um 100 fýlshreiður.

    Hafnarhús Café er staðsett við Hafnarhólmann og lundabyggðina og þar er einstaklega fallegt útsýni yfir smábátahöfnina. Kaffihúsið er á annarri hæð hússins og hægt að fá ilmandi kaffi og svalandi drykki ásamt léttum réttum. Á efstu hæðinni eru listasýningar og ljósmyndasýningar. Einnig er ýmiskonar handverk til sölu. Frekari upplýsingar um opnunartíma og annað er að finna á facebooksíðu Hafnarhússins

    Brúnavíkurhringurinn er vinsælasta gönguleiðin á Borgarfjarðarsvæðinu. Leiðin liggur nálægt sjó og er því orðin snjólétt venjulega í maí. Brúnavík er grösug og litrík og þar er að finna eina fallegustu strönd á landinu. Á góðviðrisdögum hvergi betra að vera.

    Borgarfjörður eystri